29.5.2007
Er þetta það mikilvægasta í skólakerfinu
Vissulega er ég sammála um mikilvægi þess að bjóða ókeypis máltíðir í grunnskólum. Ég er hins vegar ekki viss um að þetta sé stærsta málið í grunnskólum í dag. Ég tel miklu mikilvægara að vinna í því að leiðrétta laun grunnskólakennara þannig að grunnskólarnir missi ekki hæfa kennara bara vegna launa.
Ég persónulega er frekar tilbúinn til að borga tæpar 7.000 kr á mánuði í mat handa börnunum mínum, sérstaklega ef ég gæti verið viss um að þau fengu bestu mögulegu kennslu.
Ég skal viðurkenna það að ég er kannski hlutdrægur þar sem ég er giftur kennara. Hún hefur farið í háskólanám, er mjög áhugasöm um sína vinnu og hefur unnið við þetta í um 6 ár núna. Föst laun hjá henni eru undir 220.000 kr á mánuði.
Ég prófaði því að einfalda þetta mál allt saman og reikna út hve mikið væri hægt að hækka laun kennara ef haldið er áfram að rukka fyrir skólamáltíðir og andvirði þess sett í launahækkanir. Já ég veit, þetta er nokkuð mikil einföldun.
Máltíðir pr mán pr nemenda | 6.667 |
Fjöldi nemenda | 450 |
Heildarkostnaður pr mán | 3.000.000 |
Fjöldi kennara | 35 |
Launahækkun pr mán pr kennara | 85.714 |
Tveir grunnskólar bjóða nemendum ókeypis máltíðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Geir og takk fyrir að reikna dæmið svona út. Þar sem ég er tossi í stærðfræði þá var þetta kærkomið. Já, þú segir nokkuð þetta með launahækkun kennara. Löngu tímabært að eitthvað sé gert. En það er nokkuð sem mér finnst að í launamálum kennara og það er mín persónulega skoðun og hvernig ég upplifi það.
Mér finnst kennaraforystan vera búinn að klúðra málunum algjörlega. Hún hefur gert kennara að ,,grýlu" í samfélaginu með öllum þeim hótunum og brambolti í launabaráttunni. Ég held að það væri sterkur leikur að kennarar endurnýjuðu forystu sína algjörlega og færi af stað með mýkri áherslum. Það skilar árangri tel ég.
Svo þetta með skólamáltíðina. Jú. Það er mikilvægt að þetta sé til staðar. Ég sat nýlega fund með menntaráði Reykjavíkur. Á fundinum var rætt um málefni Brúarskóla. Þarfur skóli sem þarf virkilega að hlúa betur að og þá sérstaklega með kennara og annað starfsfólk. En það eru ekki öll börn sem hafa kost á því að borða! Það er bara svo Geir. Fullt af fólki sem ekki getur borgað þetta eða með örðum hætti gerir það ekki. Aðstæður eru svo erfiðar að það er ekki í boði fyrir öll börn að borða mat.
Ég las eitt sinn frétt frá CNN þar sem talað var um að Bandarískir skólar væru farnir að fá aðstoð frá félagasamtökum fyrir börn í skóla, þar sem þau fá ekki að borða alla vikunna. Nýtt vandamál var komið upp þar sem helgarnar voru erfiðar og sum komu svöng í skólann, matarlaus alla helgina. Það var brugðið á það ráð að gefa þeim mat eða nesti sem dugði þessa tvo daga. Börnunum gekk betur í skóla og reyndust heilbrigðari.
Þú afsakar að þetta sé svona langt hjá mér, en mér finnst þetta afar mikilvæg umræða og þarft að taka af skarið með matarmál barna í skóla. Ég minni á það að þegar ég og líklega við, var engin matur í skóla. Í Breiðholtsskóla voru margir nestislausir og það var akkorð í sumum að koma með mikið nesti því alltaf voru munnar að metta.
Bestu kveðjur,
Sveinn Hjörtur , 30.5.2007 kl. 00:08
Já sammála að það eru ekki allar fjölskyldur sem hafa ráð á mat fyrir börnin. Spurning hvort að það væri réttara að bæjarfélögin styrki þær fjölskyldur frekar en að niðurgreiða fyrir allar.
Vissulega er víða pottur brotinn í skólakerfinu okkar og þeim mun mikilvægara að forgangsraða rétt.
Geir G, 30.5.2007 kl. 08:40
Sælir, ég er sammála að laun kennara eru skammarleg, það er sama hvar okkur ber niður í launamálum þeirra stétta sinna umönnun eða fræðslu/menntun, þjóðfélagið virðist ekki vera í stakk búið til að setja það fjármagn í þessa málaflokka sem þeir eiga skilið.
Þetta með skólamáltíðirnar hef ég aðeins smá áhyggjur af hollustu þessara máltíða, dóttir mín borðar í skólanum, og ég spyr hana á hverjum degi, hvað hún hafi fengið í matinn þann daginn, oftar en ekki dreg ég næringargildi þessara máltíða í efa.
Varðandi launin, þá verð ég að vísa þessu aftur til samninganefndar kennara, þar vantar greinilega meiri hörku, samningaviðræður eru stríð, hingað til hefur ríkið unnið................
Yame...
Ásgeir Helgi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 09:06
Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að greiða niður máltíðir, einmitt fyrir þau börn sem eiga foreldra sem hafa ekki efni á því. það þarf svo lítið til að börnum sé strítt. Hins vegar eigum við, í velferðarþjóðfélaginu Ísland, að hafa efni á því að greiða niður máltíðir og hækka laun kennara. Það er bara svo einfalt, forgangsröðun er allt sem þarf.
Svanhvít Ljósbjörg Guðmundsdóttir, 30.5.2007 kl. 09:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.